1. sep. 2022 Fjármál Stjórnsýsla

Góð staða Garðabæjar í árshlutauppgjöri

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar þriðjudaginn 30. ágúst sl. var sex mánaða uppgjör Garðabæjar fyrir tímabilið janúar til júní 2022 lagt fram.

  • Aðkomutákn Garðabæjar

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar þriðjudaginn 30. ágúst sl. var sex mánaða uppgjör Garðabæjar fyrir tímabilið janúar til júní 2022 lagt fram.

Rekstrartekjur nema 13.285 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 10.127 m.kr. og skýrist mismunurinn einkum af seldum byggingarétti umfram áætlun. Samningur Garðabæjar við Framkvæmdafélagið Arnarhvol um úthlutun lóða í Vetrarmýri sem undirritaður var í maí á þessu ári gerði ráð fyrir rúmlega 3.000 m.kr. greiðslu fyrir byggingarétt í Vetrarmýri. Rekstrargjöld nema 9.466 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 9.243 m.kr. Fjármagnsgjöld nema 996 m.kr. sem er langt umfram áætlun, sem gerði ráð fyrir 3% hækkun verðlags á árinu en hækkun neysluverðsvísitölu það sem af er árinu er eins og kunnugt er nálægt 10% um þessar mundir. Rekstur málaflokka er að öðru leyti í ágætis samræmi við fjárhagsáætlun ársins.
Vegna góðrar afkomu hafa engin langtímalán verið tekin á árinu en áætlun gerði ráð fyrir að tekin yrðu lán fyrir 4.300 m.kr. Fjárfestingar nema 1.933 m.kr. á fyrri helmingi ársins sem er um 45% af fjárfestingaráætlun ársins.

Uppbygging í skólahúsnæði og bygging búsetukjarna

Mikil uppbygging á sér stað i Garðabæ með tilheyrandi fjárfestingum og innviðauppbyggingu. Verið er að byggja 2. áfanga Urriðaholtsskóla, nýjan leikskóla í Urriðaholti, fleiri búsetukjarna fyrir fatlað fólk, fjárfest hefur verið í félagslegum íbúðum auk þess sem miklar framkvæmdir hafa verið við gatna-, gangstétta- og stígagerð. Einnig hefur verið fjárfest í ýmsum smærri verkefnum og haldið áfram með endurnýjun skólalóða, farið í framkvæmdir á opnum svæðum og lokið hefur verið við ýmis verkefni sem kosið var um í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær.

,,Þrátt fyrir ýmsar blikur á lofti í efnahagsmálum er afkoma Garðabæjar góð eins og sex mánaða uppgjörið sýnir glöggt. Frá áramótum hafa verið miklar verðlagshækkanir á Íslandi sem og á heimsvísu og hafa þær áhrif á rekstur Garðabæjar svo ekki verður um villst. Því er mjög ánægjulegt að geta lagt fram sex mánaða uppgjör fyrir árið 2022, sem sýnir góða afkomu. Við erum meðvituð um að núverandi efnahagsaðstæður kalla á varfærni í rekstri sveitarfélaga á næstunni og búum að því að fjárhagsstaða Garðabæjar er mjög sterk. “ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, um árshlutauppgjörið.

Sundurliðun árshlutauppgjörs Garðabær 01.01_30.06.2022 
Árshlutauppgjör Garðabær jan. - jún. 2022
Upplýsingar um fjárhagsáætlun Garðabæjar 2022-2025