2. apr. 2019

Yfir 300 hugmyndir í Betri Garðabæ

Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær lauk þann 1. apríl sl. Frábær þátttaka var í hugmyndasöfnuninni en alls komu inn 304 hugmyndir á vefinn. Óskað var eftir fjölbreyttum og góðum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu sem fram fara 23. maí - 3. júní nk.

Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær lauk þann 1. apríl sl. Frábær þátttaka var í hugmyndasöfnuninni en alls komu inn 304 hugmyndir á vefinn. Óskað var eftir fjölbreyttum og góðum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu sem fram fara 23. maí -3. júní nk.

Nú þegar hugmyndasöfnun er lokið tekur við matshópur sem skipaður er starfsmönnum Garðabæjar sem fer yfir innsendar hugmyndir út frá skilyrðum verkefnisins og leggur fram ákveðinn fjölda hugmynda á kjörseðil þar sem hugmyndirnar eru kostnaðarmetnar. Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum varðandi hverja hugmynd og útfært hugmyndirnar í samvinnu við íbúa og áskilur Garðabær sér rétt til að útfæra hugmyndir íbúa nánar ef þess þarf.

Kosningar 23. maí – 3. júní

Þegar verkefnum hefur verið stillt upp á kjörseðil hafa íbúar, sem verða 15 ára á kosningaárinu og eldri, með skráð lögheimili í Garðabæ tækifæri til að úthluta allt að 100 milljónum í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin en kosningar hefjast 23. maí nk.

Valið fer fram á sérstöku vefsvæði þar sem notandi auðkennir sig með öruggum hætti (með Íslykli eða rafrænum skilríkjum) og þar sem atkvæði er dulkóðað. Þannig er aldrei hægt að tengja atkvæði við einstaklinga.

Framkvæmdir á verkefnum sem kosin verða áfram hefjast svo strax í sumar og gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í síðasta lagi 31. ágúst 2020.