31. okt. 2022 Grunnskólar Leikskólar Skólamál Þróunarsjóðir

Vel heppnaður menntadagur

Menntadagur leik- og grunnskóla og frístundaheimila Garðabæjar var haldinn föstudaginn 28. október á starfsdegi skólanna.

  • Menntadagur 2022.
    Menntadagur 2022.

Menntadagur leik- og grunnskóla og frístundaheimila Garðabæjar var haldinn föstudaginn 28. október á starfsdegi skólanna. Á starfsdegi skóla í lok október er orðin hefð að hafa dagskrá í hverjum skóla fyrir hádegi en eftir hádegi sameinast starfsfólk og tekur þátt í dagskrá menntadagsins. Menntadagurinn var að þessu sinni haldinn í Hofsstaðaskóla og í íþróttahúsinu Mýrinni þar sem starfsfólki gafst kostur á að velja úr og hlýða á fjölbreytt erindi í málstofum.

Áhugaverð erindi og kynningar

Erindið sem voru flutt fjölluðu m.a. um verkefni sem hafa hlotið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár. Hægt var að hlusta á erindi um lesskilning, eflingu og samhæfingu færni í upplýsingatækni, skapandi tækni og forritun, skák, skapandi hugsun og nýsköpun, kamishibai leikhús, áhrif endurgjafar á námsástundun, verkefni gegn skólaleiða, framsækna kennsluahætti í stærðfræði, ,,Morningside“-módelið í kennslu, eflingu hönnunar og forritunar, jafnréttisfræðslu, töfra tónlistar, vináttu og forvarnir, mat á námi og líðan barna, kennsluþjálfun og fyrirmæli, fjölþrepa stuðningskerfi og um jákvæða strákamenningu. Samhliða dagskrá fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla var að þessu sinni sérstök dagskrá í boði fyrir starfsfólk frístundaheimila grunnskóla þar sem var m.a. kynning á verkefninu ,,Velferð barna í Garðabæ“ og kynningar á leiklist, útileikjum og spilum.

Dagskrá menntadagsins byrjaði og endaði í sal Hofsstaðaskóla þar sem þær Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar grunnskóla, og Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar, fluttu stutt ávörp þar sem þær þökkuðu starfsfólki skólanna fyrir metnaðarfullt skólastarf og áhugaverð erindi á menntadeginum. Í lok dags mætti svo Eyþór Ingi Gunnlaugsson og sá um að hrista saman mannskapinn með hressilegum söng og gítarspili.Menntadagur 2022.

Ný menntastefna Garðabæjar

Á menntadeginum var vakin athygli á nýrri menntastefnu Garðabæjar sem var samþykkt í apríl 2022 og gildir til ársins 2030. Nýja stefnan er byggð á endurskoðun eldri stefnu í víðtæku samráði við marga aðila.
Yfirskrift stefnunnar er farsæld og framsækni en skólasamfélagið í Garðabæ byggir á þeirri hugmyndafræði að farsæld sé grundvöllur framsækni. Þannig er áhersla lögð á heilbrigða sjálfsmynd, jákvæða hugsun og farsæl samskipti meðal barna og ungmenna. Stefnuna má nálgast hér á vef Garðabæjar.

Markmið þróunarsjóða leik- og grunnskóla

Á menntadeginum voru fjölmörg erindi um verkefni sem hlotið af styrk úr þróunarsjóðum leik- og

grunnskóla í Garðabæ. Markmið þróunarsjóðanna er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi skóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar og aðrir fagaðilar sem starfa við grunnskóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og menningarsvið bæjarins í

 samstarfi við skóla geta sótt um styrk í þróunarsjóðina. Úthlutun úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla er einu sinni á ári og fjölbreytt verkefni hafa fengið styrki úr sjóðunum á liðnum árum eða allt frá árinu 2017 þegar sjóðirnir voru stofnaðir. 

Á vef Garðabæjar er hægt að skoða lokaskýrslur þróunarverkefnanna á undirsíðum þar sem verkefnin eru flokkuð eftir skólastigum.

Menntadagur 2022.