20. ágú. 2019

Upphaf skólastarfs

Skólasetning grunnskóla í Garðabæ verður föstudaginn 23. ágúst nk. Í vetur verða um 2500 nemendur í 1.-10. bekk í öllum grunnskólum Garðabæjar

Skólasetning grunnskóla í Garðabæ verður föstudaginn 23. ágúst nk.  Í vetur verða um 2500 nemendur í 1.-10. bekk í öllum grunnskólum Garðabæjar, þeim sem Garðabær rekur sem og í einkaskólum. Alls eru það 210 börn sem hefja nám í 1. bekk og þeim hópi hefur verið boðið að dvelja á tómstundaheimilum skólanna dagana áður en skólastarf hefst til að kynnast nýju umhverfi, húsnæði, skólalóð og starfsfólki skólanna. 

Það er góð staða í grunnskólum bæjarins hvað varðar mönnun og ráðningar og vel hefur gengið að fá kennara og annað starfsfólk til starfa.  Í undirbúningi fyrir skólastarf vetrarins hafa skólar boði starfsfólki upp á fjölbreytt námskeið og fræðslu t.d. í skyndihjálp, leiðsagnarmati, barnavernd, námsáætlunum í Mentor, gagnvirkum lestri, persónuvernd, upplýsingatækni og margt fleira.  

Frekari upplýsingar um skólastarfið má finna á vefsíðum grunnskóla Garðabæjar .

Framkvæmdir við skóla

Unnið hefur verið að margvíslegum úrbótum við skóla Garðabæjar í sumar.  Meðal stærstu framkvæmda sem eru í gangi eru framkvæmdir við nýbyggingu við Álftanesskóla sem ganga vel.  Áætlað er að verklok verði um áramót og að hægt verði að taka bygginguna í notkun fljótlega á nýju ári. 

Þessa dagana standa yfir lóðaframkvæmdir við Flataskóla þar sem verið er að endurgera austurlóð skólans. Þar verður m.a. farið í jarvegsskipti, landmótun í brekku og frágang yfirborða með grasi.  Áætlað er að því verki ljúki í byrjun október.  Sjá einnig frétt hér á vef Garðabæjar. 

Úrbætur hafa verið gerðar á matsölu nemenda í Garðaskóla og sala á smávöru verið færð inn í sjálfsala sem eykur aðgengi nemenda að hollum millibitum. 

Í upphafi skólaárs er verið að taka í notkun næsta áfanga við Urriðaholtsskóla og hafa framkvæmdir við lokafrágang gengið vel.