18. okt. 2019

Sáttmáli um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Garðabær ásamt fimm öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnesi, hafa undirritað tímamótasamkomulag við íslenska ríkið um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Sáttmálinn var samþykktur á fundi bæjarstjórnar í Garðabæ í gær, 17. október.

  • Séð yfir Garðabæ og Arnarnesvog
    Séð yfir Garðabæ og Arnarnesvog

Garðabær ásamt fimm öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seltjarnarnesi, hafa undirritað tímamótasamkomulag við íslenska ríkið um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Sáttmálinn var samþykktur á fundi bæjarstjórnar í Garðabæ í gær, 17. október.

Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Markmið samkomulagsins eru fjórþætt:

  • Greiðari samgöngur og fjölbreyttir ferðamátar
    Greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.
  • Kolefnislaust samfélag
    Stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum ríkis og sveitarfélaga um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag með eflingu almenningssamgangna og deilihagkerfis í samgöngum, bættum innviðum fyrir vistvæna samgöngumáta og hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta.
  • Aukið umferðaröryggi
    Stuðla að auknu umferðaröryggi með það að markmiði að draga stórlega úr umferðarslysum.
  • Samvinna og skilvirkar framkvæmdir
    Tryggja skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð verkefnisins, m.a. með því að skilgreina samstarfsform, kostnaðarskiptingu, ábyrgð á tilteknum aðgerðum og fjármögnunarleiðir.

Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á tímabilinu er um 120 milljarðar. Ríkið mun leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða. Gert er ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum kr. 

Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verður þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu. 

Nánar má lesa um sáttmálann á vef Samgönguráðuneytisins.