9. sep. 2016

Gefandi leikskólastarf með yngstu börnunum

Öll börn í Garðabæ sem voru orðin 12 mánaða 1. september fengu boð um leikskólavist frá haustinu.
  • Séð yfir Garðabæ
Öll börn í Garðabæ sem voru orðin 12 mánaða 1. september fengu boð um leikskólavist frá haustinu. Það fylgja því ný verkefni og áskoranir að sinna svo ungum börnum á leikskóla en það er líka mjög gefandi að sögn Guðrúnar Brynjólfsdóttur, aðstoðarleikskólastjóra á ungbarnaleikskólanum Sunnuhvoli.

Á Sunnuhvoli eru í vetur 27 börn á aldrinum 12-24 mánaða. Þau koma inn á leikskólann að hausti og dvelja þar í eitt skólaár og flytjast þá á aðra leikskóla. Veturinn sem nú er að hefjast er annar veturinn sem leikskólinn starfar eingöngu sem ungbarnaleikskóli en verkefnið hófst árið 2013.

Guðrún segir það móta leikskólastarfið mikið að börnin komi þangað aðeins 12 mánaða gömul. „Börnin byrja í aðlögun í ágúst og hætta hjá okkur sumarið eftir og byrja í öðrum leikskólum. Það gerir það að verkum að fyrstu vikurnar að hausti fara í aðlögun á hverju ári. Starfið er í sífelldu endurmati, til að geta mætt þörfum þessara ungu nemenda sem best, það er svo margt sem þau læra á fyrstu vikunum sínum hér og þurfa að aðlagast nýju fólki og nýrri rútínu.“

Að öðru leyti segir Guðrún leikskólastarfið á Sunnuhvoli vera hefðbundið þótt sífellt sé leitast við að þróa það og bæta með nýjum verkefnum. „Við leggjum mikla áherslu á hreyfingu og næringu. Síðastliðinn vetur vorum við með þróunarverkefni í hreyfingu sem tókst afar vel og við ætlum að halda því verkefni áfram í vetur. Við fengum jógakennara til að koma til okkar einu sinni í viku frá mars og fram í maí sem tók börnin í litlum hópum í jóga. Það var ótrúlega skemmtilegt að sjá framfarirnar hjá þessum litlu börnum bæði í jóganu og hreyfingunni yfir veturinn. Þessu til viðbótar unnum við með myndlist, tónlist, stærðfræði.“

Framfarirnar yfir veturinn er einmitt það sem Guðrún segir skemmtilegast við að kenna svo ungum börnum. „Það er svo skemmtilegt að fylgjast með þeim þroskast og stækka. Þau koma til okkar að hausti lítil og óörugg og fara héðan ári síðar sjálfsörugg og hafa lært hvað felst í því að vera í leikskóla."