19. sep. 2007

Kvenfélag Garðabæjar bauð eldri borgurum í ferð um Garðabæ

Kvenfélag Garðabæjar bauð eldri borgurum í ferð um Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Margmenni var í ferð um Garðabæinn sem Kvenfélag Garðabæjar bauð eldri borgurum bæjarins í 12. september sl. Þrátt fyrir rigningu tóku rúmlega eitt hundrað manns þátt og létu ekki veðrið á sig fá. Leiðsögumaður í ferðinni var Gunnar Einarsson bæjarstjóri sem fræddi fólk um það sem fyrir augu bar og bætti við frásögn af mannlífi liðinna tíma.

Ekið var um helstu hverfi bæjarins og farið að Vífilstöðum, út á Arnarnes og út í Gálgahraun. Áð var við Garðakirkju þar sem Gunnar fræddi fólk m.a. um tilurð kirkjunnar.

Á Garðaholti biðu kvenfélagskonur eftir hópnum með kaffihlaðborð.

Meðan setið var í kaffinu kom Sigurður Hannesson með harmonikkuna og lék þjóðkunn lög og tóku gestir undir í söng.

Í dagslok var öllum skilað heim eftir einstaklega vel heppnaðan dag og er óhætt að segja að bæði gestir og gestgjafar hafi notið dagsins.

Ferðalanga beið glæsilegt kaffihlaðborð í Garðaholti