26. okt. 2007

Rannsókn á högum og líðan barna í 5.-7. bekk í Garðabæ

forvarnir
  • Séð yfir Garðabæ


Niðurstöður nýrrar rannsóknar á högum og líðan barna í 5.-7. bekk í Garðabæ voru nýlega kynntar í forvarnanefnd. Þær sýna m.a. að börn í Garðabæ hafa jákvæðari sjálfsmynd en jafnaldrar á landsvísu. Ástæða er þó til að hvetja foreldra til að leggja meiri áherslu á samveru og samskipti fjölskyldunnar allrar.

Könnunin var framkvæmd af Rannsókn & Greiningu í febrúar 2007. Svarhlutfallið var 87%. Í skýrslu Rannsóknar & Greiningar er leitast við að sýna niðurstöður sem gefa vísbendingar um almenna líðan, samband við foreldra, vini, stríðni og einelti, íþrótta– og tómstundastarf, tækjaeign, miðla og lestur.

Almennt kemur rannsóknin ágætlega út fyrir Garðabæ varðandi hagi og líðan barna ef miðað er við landið í heild að mati rannsóknaraðila. Hér fyrir neðan er samantekt á helstu niðurstöðum úr fundargerð forvarnanefndar. Skýrslan í heild er aðgengileg á forvarnavefnum www.gardabaer.is/forvarnir .

Almenn líðan.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að nemendur í grunnskólum í Garðabæ hafa heldur jákvæðari sjálfsmynd en jafnaldrar þeirra á landsvísu.

Krakkar í Garðabæ virðast fá svipaða aðstoð við heimanám og á landinu öllu að öðru leyti en því að í Garðabæ virðast börn fá svipaða sama í hvaða bekkjardeild þeir eru, á meðan aðstoðin minnkar almennt eftir því sem börnin eldast þegar horft er til landsins alls.

Færri krökkum í Garðabæ, en almennt á landinu, líður illa heima hjá sér. Helst þarf að huga að u.þ.b. 10% hópi stúlkna í 5. bekk sem segist ekki líða vel heima hjá sér. Einnig er sláandi að 20% stúlkna í 5. bekk og 16% stráka í sama árgangi segjast sjaldan, næstum aldrei eða aldrei vera með vinum eftir skóla eða um helgar. Er þetta heldur hærra hlutfall í Garðabæ en annars staðar á landinu.

Í fljótu bragði virðist ástæða til að skoða þennan tiltekna hóp betur og skapa aðstæður sem gætu hjálpað til. Almennt vekur það athygli að allt að helmingur barna í 5-7. bekk á landinu öllu segjast vera ein heima eftir skóla.

Rúmlega fjórðungur drengja í 6. bekk horfir sjaldan, aldrei eða næstum aldrei á myndband/sjónvarp með foreldrum sínum. 31% stráka í 5. bekk segja að fjölskyldan öll tali sjaldan, aldrei eða næstum aldrei saman. Þessar niðurstöður tala til fjölskyldna að leggja áherslu á meiri samveru og samskipti enda gífurlega mikil forvörn sem í því felst.

Sláandi er hve stór hópur, þ.e. 20-31% stráka og stelpna segist eiga erfitt með að sofna á kvöldin. Þá er mjög áberandi að hópur stúlkna í 6. bekk sker sig úr varðandi ýmsa þá þætti sem skoðaðir eru og snerta líðan þeirra. Þannig telja 18-28% stúlknanna sig einmana, daprar, ekki spenntar fyrir að gera neitt, þær gráti auðveldlega og séu leiðar. 61% stelpna í 6. bekk segir að þeim líði frekar eða mjög illa þegar þeim er strítt. Þessar niðurstöður kalla á frekari skoðun og hvernig hlúa megi betur að líðan þessa hóps.

Fáir segjast taka þátt í stríðni en helst eru það strákar sem viðurkenna slíkt. Einelti virðist helst fara fram í frímínútum, á göngum í kennslustund eða í matsal.

Almennt virðist vera lítið um stríðni eða einelti í 5-7.bekk í grunnskólum í Garðabæ og heldur minna en landsmeðaltal.

Nám og skóli.

Hvað varðar nám og skóla eru það einkum eftirtaldir þættir sem vert er að skoða og vinna betur með.

Helmingi stráka í 7. bekk finnst námið næstum aldrei eða aldrei skemmtilegt og 10-19% strákanna vilja oft eða alltaf hætta í skóla. Aðeins 2-5% af þessum hóp líður þó illa í kennslustundum. Umhugsunarvert er að 20-33% nemenda fá sjaldan, aldrei eða næstum aldrei hrós frá kennurum.

Íþrótta- og tómstundastarf

Niðurstöður gefa svipaða mynd og fyrir landið allt. Mest er íþróttaiðkun meðal drengja í 6. bekk um 86% og nær einnig hámarki hjá stúlkum í sama árgangi eða 72%. Könnunin sýnir að ívið hærra hlutfall barna stundar íþróttir í Garðabæ en á landsvísu.

Hátt hlutfall eða um 40% barnanna stunda tónlistarnám. 15-30% segjast stunda félags- og tómstundastarf í félagsmiðstöð/skóla og sjá má útlínur skátastarfs, hestamennsku, taflfélags og starf KFUM og KFUK í könnuninni.

Tæki, miðlar, lestur.

Tækjaeign meðal barna í Garðabæ er svipuð og á landsvísu. 60-75% krakka í 5.-7. bekk eiga eigið sjónvarp. 80-90% eiga leikjatölvu og GSM síma. Stærstur hópurinn horfir á sjónvarp í 1-3 klukkustundir á dag. Innan við 7% fara mikið upp fyrir fjóra tíma.

Bóklestur annar en á skólabókum virðist minnka með hækkandi aldri en athygli vekur mikill áhugi á teiknimyndasögum. Vel yfir helmingur krakka virðist rýna í slíkt efni á hverjum degi. Fram kemur að rúmlega helmingur hópsins eyðir tíma í tölvuleiki á hverjum degi og einnig að notkun á spjallrásum MSN eykst með hækkandi aldri. Flestir telja sig þó verja ½ til 1 klst. á dag en nokkur prósent telja sig verja meira en 4 klst. í þessa iðju á dag.