16. nóv. 2007

Tillaga Arkþings, Arkitema og VSÓ ráðgjafar valin til úfærslu rammaskipulags á Hnoðraholti

Tillaga Arkþings, Arkitema og VSÓ ráðgjafar valin til úfærslu rammaskipulags á Hnoðraholti
  • Séð yfir Garðabæ


Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að velja tillögu Arkþings, Arkitema og VSÓ ráðgjafar að rammaskipulagi íbúðabyggðar í Hnoðraholti til útfærslu rammaskipulags á svæðinu. Tillagan gerir ráð fyrir 682 nýjum íbúðum í holtinu og útivistarsvæði á háholtinu með tengingum í aðliggjandi opin svæði.

Hnoðraholt er staðsett austan Reykjanesbrautar í Garðabæ. Í vesturhluta holtsins er nú þegar íbúðahverfi með 44 einbýlishúsum. Sunnan við holtið er Vetrarmýri en í stærstum hluta hennar er golfvöllur GKG.

Tillaga Arkþings, Arkitema og VSÓ ráðgjafar byggir á uppskiptingu holtsins í einfalt gatnakerfi húsagatna sem hringa sig um holtið. Grænt útivistarsvæði á háholtinu myndar svæði fyrir grunn- og leikskóla og teygir anga sína að göngutengingu við Reykjanesbraut í vestri og niður hlíðina að golfvelli í suðri. Um háholtið hringast byggð fjölbýla og þéttari klasa sérbýla og þar sameinast gönguleiðir og sjónlínur í gegnum hverfið og við aðliggjandi svæði. Þar geta íbúar, skóla- og leikskólabörn sem og aðrir notið útivistar og náttúru.

Tillagan gerir ráð fyrir færslu Hnoðraholtsbrautar frá núverandi byggð um 10-50 metra og er þannig tekið tillit til núverandi byggðar. Áhersla er lögð á að byggð verði smágerð og lágreist og falli vel að landi. Þannig fellur byggð að núverandi byggð í holtinu og ásýnd hverisins verður í anda byggðar í Garðabæ.

Tillagan gerir ráð fyrir 682 nýjum íbúðum í einbýlishúsum, rað- og parhúsum og fjölbýli. Magn atvinnuhúsnæðis er 8.500 m2.

Mynd af fulltrúum Arþings og VSÓ ráðgjafar ásamt bæjarstjóra, skipulagsstjóra Garðabæjar og formanni skipulagsnefndar

Valin úr hópi fimm tillagna

Rýnihópur skipaður af bæjarstjórn hefur unnið að undirbúningi rammaskipulagsgerðarinnar frá haustinu 2006. Að undangengnu forvali voru fimm hönnunarhópar valdir til að vinna tillögur að rammaskipulagi byggðarinnar og skiluðu þeir tillögum sínum 2. febrúar 2007. Hóparnir voru:

  • Arkiteo ehf
  • ARKþing, Arkitema og VSÓ ráðgjöf.
  • Batteríið, Landslag og VSB verkfræðistofa.
  • Kanon arkitektar og Línuhönnun
  • Zeppelin arkitektar

Tillöguhöfundar kynntu hugmyndir sínar fyrir rýnihópnum og einnig var haldinn almennur kynningarfundur í Flataskóla.  Auk þess voru tillögurnar til kynningar á bæjarskrifstofum og á vef Garðabæjar.

Rýnihópurinn komst að þeirri niðurstöðu að velja tillögur Arkþings og Batterísins til áframhaldandi vinnu við gerð rammaskipulags. Frestur til að skila inn tillögum í 2. þrepi var til 18. maí 2007.

Eftir ítarlega skoðun komst rýnihópur komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum 8. nóvember sl. að velja tillögu Arkþings, Arkitema og VSÓ ráðgjafar til útfærslu rammaskipulags. Niðurstaða rýnihóps var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 15. nóvember 2007.

Í kjölfarið á niðurstöðu rýnihóps verður tillaga Arkþings, Arkitema og VSÓ ráðgjafar útfærð í samvinnu við skipulagsnefnd.

Stefnt er að því að vinna við deiliskipulag Hnoðraholts hefjist bráðlega.

Á myndinni eru fulltrúar Arþings og VSÓ ráðgjafar ásamt bæjarstjóra, skipulagsstjóra Garðabæjar og formanni skipulagsnefndar.

Tillagan og greinargerð rýnihóps.