19. sep. 2008

Draugar á bókasafninu

Bókasafn Garðabæjar tekur nú í fyrsta sinn þátt í alþjóðlegu barnabókmenntahátíðinni "Draugar úti í mýri". Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur hóf dagskrána með upplestri
  • Séð yfir Garðabæ

Bókasafn Garðabæjar og grunnskólar í Garðabæjar taka nú í fyrsta sinn þátt í alþjóðlegu barnabókmenntahátíðin ”Úti í mýri” sem haldin er í fjórða sinn hér á landi dagana 19.- 23. september. Að hátíðinni standa m.a. Norræna húsið, Rithöfundasamband Íslands, IBBY félag áhugafólks um eflingu barnamenningu og Kennaraháskóli Íslands.

Athyglinni beint að barnabókmenntum

Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á barnabókmenntum og beina sjónum að því mikilvæga menningarstarfi sem höfundar barna- og unglingabóka sinna. Innlendir og erlendir rithöfundar víða að úr heiminum verða gestir hátíðarinnar og verða verk þeirra kynnt íslenskum grunnskólanemendum í Reykjavík og Garðabæ. Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er “Draugar úti í mýri”

Fjöbreytt dagskrá á bókasafninu

Á Bókasafni Garðabæjar og í grunnskólar í bænum verður boðið upp á höfundakynningar og upplestur, meðan á hátíðinni stendur. Dagskráin í Bókasafni Garðabæjar verður fjölbreytt. Draugagangurinn verður allsráðandi og margir barnabókahöfundar munu sækja safnið heim til að kynna verk sín og lesa upp úr þeim.

Verðlaunahöfundur á Bókasafninu

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur las upp úr bókum á Bókasafni Garðabæjar föstudaginn 19. september.  Þó nokkur fjöldi skólabarna mætti til að hlýða á upplesturinn enda tilvalið að heimsækja bókasafnið á skipulagsdegi skólanna. Þess má geta að nýlega hlaut Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og Garðbæingur barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins fyrir bók sína Draugaslóð sem kom út árið 2007.

Í næstu viku verður einnig margt um að vera í bókasafninu en þá koma eftirfarandi rithöfundar í heimsókn:

Mánudagur 22. september kl. 10-12
Kristín Steinsdóttir

Þriðjudagur 23. september kl. 10-12
Gerður Kristný

Þriðjudagur 23. september kl. 12.40-14
Iðunn Steinsdóttir

Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á www.myrin.is