20. okt. 2011

Mikilvægt að þekkja vini barnanna

Niðurstöður tveggja rannsókna á vímuefnaneyslu, högum og líðan ungs fólks í Garðabæ voru kynntar á fjölmennum opnum fundi í vikunni.
  • Séð yfir Garðabæ

Börnum í 5.-7. bekk í Garðabæ líður almennt vel. Fleiri drengir en stúlkur sýna þó einkenni vanlíðunar. Almennt séð hefur dregið úr áfengisneyslu barna í elstu bekkjum grunnskóla en gífurleg aukning verður á neyslunni fyrsta árið í framhaldsskóla. Ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart aukinni notkun á maríjúana.

Þetta eru á meðal fjölmargra niðurstaðna úr tveimur könnunum á högum ungs fólks í Garðabæ sem fyrirtækið Rannsókn og greining gerði fyrr á þessu ári og kynntar voru á opnum fundi á fimmtudagsmorgun. Yfir 50 manns komu á fundinn og hlýddu á erindi Jóns Sigfússonar frá Rannsókn og greiningu.


Kannanirnar eru annars vegar Könnun á högum og líðan barna í 5.-7. bekk og hins vegar Könnun á vimuefnaneyslu unglinga í 8.-10. bekk.

 

Jón sagði í erindi sínu að börn og ungmenni í Garðabæ virtust almennt vera á góðu róli. Langflestir segja að þeim líði vel, börnin eru virk í íþrótta- og tómstundastarfi og vímuefnaneysla grunnskólabarna er á niðurleið eins og reyndar á landinu öllu.

Hagir og líðan barna í 5.-7. bekk

Þegar rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar meðal nemenda í 5.-7. bekk sést að strákar sýna oftar einkenni vanlíðunar, m.a. með því að taka reiðiköst, fleiri strákar segja að námið sé leiðinlegt og þeir segjast verja minni tíma með fjölskyldum sínum. Þá líta strákar líka frekar svo á að foreldrar þeirra þekki vini sína lítið eða ekkert og sama á við um foreldra vinanna.

Í umræðum á fundinum kom fram að það gæti falist í því sóknarfæri fyrir foreldra að efla félagsnetið sín á milli og leggja sig fram við að kynnast vinunum. Slíkt eykur vellíðan og öryggi barna að sögn Jóns. Hann lagði þó áherslu á það í máli sínu að í heildina væru niðurstöðurnar jákvæðar og að almennt virðist börnum á þessum aldri í Garðabæ líða vel.  

Hlutfall nemenda sem fær oft reiðiköst. Úr rannsókn á högum og líðan barna í 5-7 bekk í Garðabæ 2011

Samband við foreldra og fjölskyldu. Úr rannsókn á högum og líðan barna í 5-7 bekk í Garðabæ 2011

Áberandi fleiri strákar en stelpur í 5.-7. bekk segjast sjaldan eða aldrei vera með foreldrum sínum eftir skóla.

Vímuefnaneysla ungmenna í 8.-10. bekk

Þegar horft er á 10. bekk dregur bæði úr daglegum reykingum og áfengisneyslu, þ.e. færri segjast hafa orðið ölvaðir sl. 30 daga en í síðustu könnun. Örlítið færri en á árinu 2010 segjast hafa notað maríjúana einu sinni eða oftar á ævinni. Jón benti þó á að engu að síður væri það of hátt hlutfall að 7% nemenda í 8.-10. bekk svaraði þeirri spurningu játandi. Garðabær er hér á svipuðum stað og landsmeðaltalið þar sem hlutfallið er 8%.


Jón vakti athygli á því að þótt góður árangur hefði náðst í því að draga úr noktun áfengis og annarra vímuefna í grunnskóla yrði mikil breyting strax fyrsta veturinn í framhaldsskóla og væri ástæða til að vera vakandi fyrir því.

 

Hér fyrir neðan eru nokkrar glærur úr kynningu Jóns. Foreldrar og aðrir sem starfa með börnum og ungmennum eru hvattir til að kynna sér niðurstöður rannsóknanna.

 

Könnun á högum og líðan barna í 5.-7 bekk.

Könnun á vímuefnaneyslu unglinga í 8.-10. bekk.

Glærur Jóns frá fundinum

Daglegar reykningar í 10. bekk. Úr könnun á vímuefnaneyslu unglinga í Garðabæ 2011

Ölvun sl. 30 daga í 10. bekk. Úr könnun á vímuefnaneyslu unglinga í Garðabæ 2011

Hafa notað marijúana. Úr könnun á vímuefnaneyslu unglinga í Garðabæ 2011

Úr könnun á vímuefnaneyslu unglinga í Garðabæ 2011