22. sep. 2017

Fræðst um sögu merkra húsa á Álftanesi

Miðvikudaginn 20. september var haldið í göngu um Álftanes þar sem Pétur Ármannsson arkitekt sagði frá sögu merkra húsa á Álftanesi. Þrátt fyrir rigningarveður var mjög góð þátttaka í göngunni en hátt í 70 manns mættu í gönguna.
  • Séð yfir Garðabæ
Lýðheilsugöngur í boði Garðabæjar hafa farið vel af stað það sem af er september. Um er að ræða göngur sem eru hluti af verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september.  Göngurnar eru um leið áframhald vinsælla sögu- og fræðslugangna Garðabæjar.  

Miðvikudaginn 20. september var haldið í göngu um Álftanes þar sem Pétur Ármannsson arkitekt sagði frá sögu merkra húsa á Álftanesi.  Þrátt fyrir rigningarveður var mjög góð þátttaka í göngunni en hátt í 70 manns mættu í gönguna.  Genginn var hringur um suðurnesið á Álftanesinu út frá Bjarnastöðum og í lok göngunnar bauð húsráðandi á Marbakka þeim sem vildu að skoða húsið að innan og þiggja kaffisopa.  Meðfylgjandi myndir með frétt eru úr göngunni á Álftanesinu.

Gengið að Vífilsstaðaseli í Heiðmörk 27. september kl. 18

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar 

Síðasta gangan í september verður miðvikudaginn 27. september kl. 18 en þá verður haldið í göngu undir þemanu náttúra þar sem gengið verður að Vífilsstaðaseli í Selholti í Heiðmörk undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings.  Mæting í gönguna er við bílaplanið við Heiðmerkurveg, beygt inn á Heiðmerkurveg hjá Maríuhellum og ekið áfram uþb 1,5 km að bílaplaninu.  Frá bílaplaninu verður gengið með hlíðinni upp veginn að Vífilsstaðaseli og tilbaka, um klukkutíma ganga. 

Vífilsstaðasel er austan við línuveg í skjólgóðum og grasi grónum hvammi, sunnan þess  er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og þar vestur af liggur Selstígurinn að Vífilstöðum.  Þarna eru leifar af nýrri og eldri selstöðum og er því að finna mörg hús á svæðinu frá mismunandi tímum. Elstu selin eru útflött og erfitt að átta sig á húsaskipan en yngsta selið er vel greinilegt og eru fimm rými í þeim og öll í röð. Leifar af tveimur stekkjum er finna rétt ofan við selin. 

Allir eru velkomnir í þessa síðustu göngu en tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.  
Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir annars staðar á landinu má finna á vef verkefnisins www.fi.is/lydheilsa.