1. des. 2017

Ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi 2. desember

Laugardaginn 2. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 48. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan. Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi við ráðhús Garðabæjar
  • Séð yfir Garðabæ
Laugardaginn 2. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 48. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan.  Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi við ráðhús Garðabæjar. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur jólalög og því næst syngur barnakór leikskólans Hæðarbóls nokkur lög fyrir gesti.  Fulltrúi Norræna félagsins í Garðabæ býður gesti velkomna og Silje Beite Løken menningar- og upplýsingafulltrúi sendiráðs Noregs á Íslandi afhendir jólatréð fyrir hönd Asker.  Jóna Sæmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, veitir trénu viðtöku.  Börn í skólakór Sjálandsskóla stíga á svið og flytja vel valin lög fyrir viðstadda og að lokum mæta jólasveinar fyrr til byggða og halda uppi stemningunni með skemmtilegum jólalögum.  Gestir eru hvattir til að klæða sig vel eftir veðri. 

Barnaleikrit í Bókasafninu og ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands

Ýmislegt verður einnig um að vera fyrr um daginn í miðbæ Garðabæjar.  Að venju er leiksýning í Bókasafni Garðabæjar,  sem að þessu sinni hefst kl. 14:30 þegar leikhópurinn á Senunni sýnir ,,Ævintýrið um Augastein“ á efri hæð safnsins að Garðatorgi 7.  Laugardaginn 2. desember verður einnig ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands á Garðatorgi og safnið er opið frá kl. 12-17. Í safninu standa yfir sýningarnar ,,Geymilegir hlutir“ og ,,Íslensk plötuumslög“.   Í Hönnunarsafninu verður einnig ,,pop-up" eða smástundamarkaður Bjarna Sigurðssonar leirlistahönnuðar og í hádeginu verður boðið upp á súpu í samstarfi við Kjöt og fisk í safninu.  

Verslun á Garðatorgi og opnar vinnustofur og popup – jólalistamarkaður Grósku

Á Garðatorgi er hægt að byrja jólaverslunina í verslunum á torginu.  Listamenn í Grósku ætla að skella upp jólalistamarkaði á laugardeginum frá kl. 12-18 í Gróskusalnum á 2. Hæð á Garðatorgi 1. Einnig verða opnar vinnustofur listamanna á sömu hæð þar sem verður líka hægt að finna stór og smá verk til að gleðja hvern sem er.

Allir eru velkomnir á Garðatorgið til að taka þátt í jóladagskránni.  Sjá nánari upplýsingar hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar.