31. jan. 2018

Safnanótt og sundlaugafjör í Garðabæ föstudaginn 2. febrúar

Á Safnanótt, föstudaginn 2. febrúar, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg. Auk þess verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 17-21. Í Álftaneslaug verður sundlaugafjör skemmtidagskrá föstudaginn 2. febrúar og opið til kl. 22. Ókeypis aðgangur í öll söfnin og Álftaneslaugina í kvöld.
  • Séð yfir Garðabæ
Hin árlega Vetrarhátíð fer fram dagana 1.-4. febrúar nk. með þátttöku allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.  Á Safnanótt, föstudaginn 2. febrúar, verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg.  Auk þess verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 17-21.  Í Álftaneslaug verður skemmtidagskrá og opið til kl. 22 föstudaginn 2. febrúar.  Dagskráin í Álftaneslaug er degi fyrr en venjulega miðað við undanfarin ár vegna þorrablóts Álftaness sem verður haldið laugardagskvöldið 3. febrúar í íþróttahúsinu á Álftanesi.  

Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar, gardabaer.is, er hægt að sjá tímasetta dagskrá í Garðabæ á safnanótt og í sundlaugafjörinu en jafnframt er hægt að sjá dagskrá annars staðar á höfuðborgarsvæðinu á vef Vetrarhátíðar, www.vetrarhatid.is. 

Opið hús í Króki á Garðaholti á Safnanótt 

Burstabærinn Krókur á Garðaholti verður með opið hús á Safnanótt frá kl. 18-23.  Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Börn sem koma í heimsókn í Krók á Safnanótt geta tekið þátt í ratleik á staðnum auk þess sem safnvörður veitir leiðsögn.  Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti, en Krókur staðsettur á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar. 

Viðburður á fésbókarsíðu Króks

Spákona, axlarnudd, húlludúllan, Nanna Rögnvaldar og Svavar Knútur 

Í Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg verður skemmtileg dagskrá fyrir alla aldurshópa á Safnanótt frá kl. 18-23.  Barnakór Sjálandsskóla syngur fyrir gesti safnsins,  Húlladúllan mætir og sýnir listir sínar og yngstu gestirnir geta tekið þátt í húllasmiðju og einnig verða ratleikir í boði á safninu.  Hin sívínsæla spákona verður á sínum stað og tímapantanir á staðnum.  Í ár geta bókasafnsgestir einnig pantað sér tíma í 10 mínútna axlarnuddi á staðnum.  Nanna Rögnvaldardóttir matarbloggari og höfundur mætir í safnið og fjallar um matargerð fyrr og nú.  Nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar spila fyrir gesti safnsins og kl. 21:30 stígur Svavar Knútur tónlistarmaður á svið í safninu og spilar og syngur fyrir gesti.  Það verður sannkölluð kaffihúsastemning í safninu þetta kvöld. 

Viðburðir á fésbókarsíðu bókasafnsins. 

Hlustunarpartý og stuð í Hönnunarsafninu á Safnanótt

Á Safnanótt verður opið til kl. 23 um kvöldið og ókeypis aðgangur inn á sýningar og dagskrá safnsins.   Í safninu verður boðið upp á leiðsögn og spjall kl. 20:30 um sýninguna ,,Íslensk plötuumslög” og kl. 22 verður boðið upp á leiðsögn og spjal um sýninguna ,,Íslenska lopapeysan, uppruni, saga og hönnun”.  Í tengslum við sýninguna Íslensk Plötuumslög verður boðið upp á HLUSTUNARPARTÝ kl. 21.00 – 21.40. Um er að ræða verk sem teygir út hugmyndina um dans og kóreógrafíu. Tuttuguogfimm unglingar taka þátt í verkinu sem frumsýnt var á dansátíðinni Everybody´s Spectacular á síðasta ári og hlaut frábærar viðtökur. 

Hlustunarpartý - viðburður á fésbókarsíðu Hönnunarsafnsins. 

Opið hús á Bessastöðum á Safnanótt kl. 17-21

Föstudaginn 2. febrúar n.k. verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi sem liður í Vetrarhátíð og Safnanótt 2018. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu og kirkjuna milli klukkan 17:00 og 21:00.  Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér sýnishorn gjafa, sem forseta hafa borist og fornleifar sem veita innsýn í búsetu á Bessastöðum frá landnámstíð. 
Þá mun fyrsti forsetabíll lýðveldissögunnar, Packard bifreið Sveins Björnssonar, standa í hlaði Bessastaða en bifreiðin er ríflega sjötug, árgerð 1942

Sundlaugafjör í Álftaneslaug á föstudeginum 2. febrúar

Álftaneslaug verður með sundlaugafjör í lauginni frá kl. 18-22 föstudagskvöldið 2. febrúar nk. í tilefni af Vetrarhátíð. Ókeypis aðgangur er í sundlaugina á sundlaugafjörinu.  Eins og fyrri ár verður boðið upp á dótasund í innilauginni fyrri part kvölds.  Sunddeild Stjörnunnar ætlar að endurtaka leikinn frá því í fyrra og bjóða upp á örkennslu í sundtækni frá kl. 18-19.  Hið vinsæla öldudiskó verður á sínum stað þegar öldulaugin verður sett í gang kl. 19:30.  Söngkonan María Magnúsdóttir ásamt Birgi Rafni Gíslasyni gítarleikara flytja frumsamin lög MIMRU ásamt þekktum lögum í nýjum búningi við sundlaugarbakkann kl. 20 um kvöldið.  Kl. 20:30 hefst hið vinsæla Aqua Zumba í útilauginni sem sundlaugagestir hafa fjölmennt í síðustu ár.  Að loknum zumbatíma er hægt að slaka á í sundfloti í innilauginni eða taka því rólega í heitu pottunum. 

Sundlaugafjör - viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar