23. feb. 2018

Plastið í sér poka og beint út í tunnu

Íbúar í Garðabæ geta frá og með 1. mars nk. sett allt plast saman í lokuðum plastpoka beint í gráu sorptunnuna (orkutunnuna). Plastpokarnir verða flokkaðir sérstaklega frá öðru rusli og þeim komið til endurvinnslu. Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar.

  • Vindflokkarinn Kári
    Vindflokkarinn Kári sem flokkar plast frá öðrum úrgangi.

Íbúar í Garðabæ geta frá og með 1. mars nk. sett allt plast saman í lokuðum plastpoka beint í gráu sorptunnuna (orkutunnuna).  Plastpokarnir verða flokkaðir sérstaklega frá öðru rusli og þeim komið til endurvinnslu.  Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar.  

Hér á vef SORPU er hægt að sjá nánari upplýsingar um plastverkefnið.   Einnig verða upplýsingar um plastflokkunina settar inn á vef Garðabæjar og íbúar fá bækling sendan heim eftir helgina sem útskýrir ferlið. 

Hreint plast sett í lokaðan plastpoka beint í sorptunnunu heimila

Í mars verður tekinn í notkun nýr búnaður í móttöku- og flokkunarstöð SORPU sem mun auðvelda flokkun á plasti til endurvinnslu. Þá verður einfaldlega hægt að setja hreint plast í lokuðum plastpoka í sorptunnuna (orkutunnuna) og SORPA flokkar það svo vélrænt frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Nýi tækjabúnaðurinn mun meta eðlisþyngd plastsins og blæs pokum með flokkuðu plasti frá öðrum úrgangi. Ekki mun þurfa neina sérstaka poka undir plastið, að öðru leyti en því að þeir þurfa að vera úr plasti. Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að draga úr urðun plasts og nýta betur hráefni í plastinu. 

 

Hvers vegna að flokka plast?

Plast er búið til úr olíu, sem er óendurnýjanleg auðlind, og er mikilvægt að nýta betur en nú er gert. Plast brotnar seint eða ekki niður í náttúrunni og getur valdið lífríkinu skaða sleppi það óhindrað út í umhverfið. Ábyrgð okkar allra er að umgangast auðlindir jarðar af virðingu og koma úrgangi í þann farveg að hráefni nýtist á nýjan leik en fari ekki til spillis eða valdi umhverfinu skaða. Samfélagið þarf að gera betur hvað plastið varðar og með nýjum vélrænum flokkunarbúnaði í móttöku- og flokkunarstöð SORPU er einfalt að koma því til endurvinnslu.