12. mar. 2018

Undraveröld Kron by Kronkron í Hönnunarsafni Íslands

Undraveröld Kron by Kronkron er heiti sýningar sem opnar í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi, sunnudaginn 18. mars kl. 16. Um er að ræða sköpunarverk þeirra Hugrúnar Árnadóttur og Magna Þorsteinssonar sem hafa á síðustu tíu árum hannað, framleitt og selt um allan heim yfir 2000 tegundir hluta, þar af yfir 1200 skótegundir sem eru uppistaðan á þessari sýningu. Sýningaropnunin er hluti af HönnunarMars sem fer fram í tíunda sinn dagana 15-18. mars næstkomandi.

  • Kron by Kronkron
    Kron by kronkron

Undraveröld Kron by Kronkron er heiti sýningar sem opnar í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi, sunnudaginn 18. mars kl. 16. Um er að ræða sköpunarverk þeirra Hugrúnar Árnadóttur og Magna Þorsteinssonar sem hafa á síðustu tíu árum hannað, framleitt og selt um allan heim yfir 2000 tegundir hluta, þar af yfir 1200 skótegundir sem eru uppistaðan á þessari sýningu. Sýningaropnunin er hluti af HönnunarMars sem fer fram í tíunda sinn dagana 15-18. mars næstkomandi.  

Byggja hliðarheim ásamt börnum sínum 


Á vef Hönnunarsafnsins kemur fram að sýningin er undraveröld parsins Hugrúnar og Magna en þau byggja þennan hliðarheim ásamt börnum sínum. Veruleiki þeirra umlykur þau algerlega og er frábrugðinn öðru. Áreynsluleysið sem einkennir hönnun þeirra á rætur sínar í þessari heildrænu veröld. Þannig tekst þeim að skapa undravert magn einstakrar og tæknilega margbrotinnar hönnunar.

Hugrún og Magni opnuðu verslunina Kronkron við Vitastíg árið 2004 eftir að hafa rekið skóbúðina Kron á Laugavegi frá árinu 2000. Þar leggja þau sig fram við að para saman ólíka hönnuði sem eiga það sameiginlegt að vera fylgnir sjálfum sér og láta markaðstólin ekki hafa áhrif á sig. Þannig verður til ævintýraheimur þar sem hægt er að gleyma sér í fegurðinni, dást að handverki og hugmyndaflugi, láta sig dreyma, máta, spjalla og eignast flík sem komist hefur í gegnum fagurnet þeirra Magna og Hugrúnar. Það geta allir opnað búð en það er galdur að skapa slíkt andrúmsloft sem svo skilar sér í gegnum þeirra eigin hönnun á skóm, fatnaði og fylgihlutum sem þau hófu framleiðslu á undir merkinu Kron by Kronkron árið 2008.

Nánari upplýsingar má finna á viðburði opnunarinnar á Facebook.

Dagskrá á HönnunarMars.

Hönnunarsafn Íslands er til húsa að Garðatorgi 1 í Garðabæ. 
Safnið er opið alla daga (nema mánudaga) frá 12-17.