21. mar. 2018

Fuglar á vötnum og votlendi í Garðabæ

Í nýrri skýrslu sem ber heitið Fuglar á helstu vötnum og mýrlendi í Garðabæ og var unnin að beiðni umhverfisnefndar Garðabæjar, er sagt frá talningu fugla í bæjarlandinu á árinu 2017. Í skýrslunni kemur fram að alls hafi sést 50 fuglategundir á öllum talningarsvæðum. ?

  • Vífilsstaðavatn
    Vífilsstaðavatn

Í nýrri skýrslu sem ber heitið Fuglar á helstu vötnum og mýrlendi í Garðabæ og var unnin að beiðni umhverfisnefndar Garðabæjar, er sagt frá talningu fugla í bæjarlandinu á árinu 2017. Í skýrslunni kemur fram að alls hafi sést 50 fuglategundir á öllum talningarsvæðum. 

Helstu niðurstöður kynntar

Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar, veitti skýrslunni viðtöku á nýliðnum umhverfisnefndarfundi í mars. Þar kynntu höfundar skýrslunnar, þeir Ólafur Einarsson fuglafræðingur og Jóhann Óli Hilmarsson ljósmyndari, helstu niðurstöður skýrslunnar.

Tilgangurinn með fuglatalningunni er að afla upplýsinga um núverandi ástand fuglalífs á svæðunum og hvort breytingar hafa orðið þar á frá síðustu talningu. 

Metnaðarfull fuglavöktun

Eins og höfundar skýrslunnar komu orði að, þá er Garðabær með eina metnaðarfyllstu fuglavöktunina af sveitarfélögum á landinu öllu, þar sem fylgst er með fuglum á vötnum og í fjöru á reglubundinn og skipulagðan hátt. Reglubundnar talningar er mjög mikilvægur liður í því að afla upplýsinga um fugla og búsvæði þeirra í Garðabæ og virka jafnframt sem mælikvarði á allt lífríki votlendanna og ástand þess.

Garðabær hefur að undanförnu unnið að endurheimt votlendis við Kasthúsatjörn og Urriðavatn og verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif sú endurheimt mun hafa á fuglalíf á svæðinu. Í skýrslunni er sagt frá stökum talningum á Vífilsstaða- og Urriðavatni 2016 en þær voru gerðar til þess að afla upplýsinga um hvernig gekk hjá flórgoðanum að koma upp ungum eftir að starfsfólk umhverfishópa og garðyrkjudeildar komu fyrir tilbúnum varpstæðum á vatninu.