18. jan. 2016

Ánægja með þjónustu Garðabæjar

Garðabær lendir í fyrsta eða öðru sæti í níu spurningum af þrettán í íbúakönnun Gallup sem framkvæmd var seint á síðasta ári.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær lendir í fyrsta eða öðru sæti í níu spurningum af þrettán í íbúakönnun Gallup sem framkvæmd var seint á síðasta ári. Í könnuninni voru íbúar 19 sveitarfélaga á landinu spurðir um afstöðu þeirra til ólíkra þátta í þjónustu síns sveitarfélags.

Garðabær fær hæstu einkunn allra sveitarfélaga þegar íbúar eru spurðir hversu ánægðir þeir eru með sveitarfélagið sitt sem stað til að búa á. Sama á við þegar spurt er um ánægju með skipulagsmál almennt í sveitarfélaginu, um þjónustu í tengslum við sorphirðu og það hversu vel eða illa starfsfólk hafi leyst úr erindum þeirra sem til þess hafa leitað.

Íbúar Garðabæjar eru næst ánægðastir íbúa allra sveitarfélaganna þegar spurt er um gæði umhverfis, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla og þjónustu leikskóla. Eins fær Garðabær annað sætið þegar spurt um ánægju með þjónustu sveitarfélagsins í heildina.

Lægst lendir Garðabær í 8. sæti þegar spurt er um ánægju með aðstöðu til íþróttaiðkunar og í 6. sæti þegar spurt er um þjónustu við fatlað fólk.

Einkunnirnar í könnuninni eru gefnar á kvarðanum 1-5. Hæstu einkunnir Garðabæjar, 4,5 er við spurningunni um Garðabæ sem stað til að vera á og 4,3 þegar spurt er um þjónustu leikskóla.

Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar