30. apr. 2009

Frumkvöðlasetrið Kvikan

Bæjarstjórar Garðabæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Sveitarfélagsins Álftaness skrifuðu í dag undir samning um sameiginlegan rekstur á nýju frumkvöðlasetri sem fengið hefur nafnið Kvikan.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórar Garðabæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Sveitarfélagsins Álftaness skrifuðu í dag undir samning um sameiginlegan rekstur á nýju frumkvöðlasetri sem fengið hefur nafnið Kvikan. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun sjá um rekstur Kvikunnar fyrir sveitarfélögin þrjú samkvæmt samningnum og skrifaði forstjóri hennar, Þorsteinn Ingi Sigfússon einnig undir samninginn fyrir hönd stofnunarinnar.

 

Aðstaða til að vinna að viðskiptahugmyndum

Gert er ráð fyrir að Kvikan verði opnuð þann 15. maí að Strandgötu 11 í Hafnarfirði. Í Kvikunni geta 10 - 15 einstaklingar fengið aðstöðu til að vinna að viðskiptahugmyndum undir faglegri handleiðslu sérfræðinga Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Í Kvikunni er góð vinnuaðstaða, gert er ráð fyrir að þar geti frumkvöðlar myndað tengslanet og fengið stuðning til að stofna fyrirtæki.

Garðbæingar sem hafa góða viðskiptahugmynd eru hvattir til að setja sig í samband við Nýsköpunarmiðstöð og kynna sér þá möguleika sem Kvikan mun bjóða upp á.

Sótt um á vef Nýsköpunarmiðstöðvar

Nánari upplýsingar um frumkvöðlasetur og eyðublöð til að sækja um aðstöðu í Kvikunni eru á vef Nýsköpunarmiðstöðvar, www.nmi.is.  

Á myndinni eru þeir: Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði, Sigurður Magnússon bæjarstjóri á Álftanesi og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við undirritun samningsins.