8. feb. 2019

Miðsvæði Álftaness, nýtt deiliskipulag

Tillögur að deiliskipulagi miðsvæðis Álftaness hafa verið í auglýsingu frá því í byrjun janúar fram í febrúar. Frestur til þess að skila inn athugasemdum rann út 7. febrúar sl.

  • Undirskriftalistar íbúa afhentir
    Frá vinstri: Eyþór Kristleifsson, Eva Hlín Thorarensen, Ragnheiður Arngrímsdóttir, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri

Tillögur að deiliskipulagi miðsvæðis Álftaness hafa verið í auglýsingu frá því í byrjun janúar fram í febrúar. Frestur til þess að skila inn athugasemdum rann út 7. febrúar sl. Hópur íbúa á Álftanesi skilaði í sameiningu inn athugasemdum við tillögurnar.

Fulltrúar hópsins þau Eyþór Kristleifsson, Ragnheiður Arngrímsdóttir og Eva Hlín Thorarensen funduðu með Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og Arinbirni Vilhjálmssyni skipulagsstjóra á bæjarskrifstofunum 7. febrúar og afhentu við það tækifæri athugasemdir hópsins sem eru undirritaðar af um 400 manns.

Tillögurnar sem voru auglýstar voru settar fram í fimm deiliskipulagsáætlunum sem ganga undir nöfnunum Breiðumýri, Krókur, Helguvík, Skógtjörn og Kumlamýri. Þær voru kynntar á íbúafundi á Álftanesi miðvikudaginn 16. janúar sl. Tillögurnar eru afrakstur áframhaldandi vinnu með vinningshöfum í framkvæmdasamkeppni um deiliskipulag fyrir miðsvæði Álftaness frá árinu 2017.

Næstu vikur verður farið yfir þær athugasemdir sem hafa borist og þær teknar til umfjöllunar í skipulagsnefnd og til úrvinnslu hjá skipulagráðgjöfum. Eins og skipulagslög gera ráð fyrir mun skipulagsnefnd svara öllum athugasemdum með rökstuðningi.