9. júl. 2021 Leikskólar

Leikskólinn Mánahvoll tekur til starfa í haust

Í Garðabæ hefur börnum á leikskólaaldri fjölgað með stækkandi bæjarfélagi og stórum árgangi sem er að hefja leikskólagöngu sína í haust. Vegna þessarar fjölgunar leikskólabarna í bænum er stefnt að því að opna nýjan leikskóla í Garðabæ, ungbarnaleikskólann Mánahvol, í haust.

  • Listadagar undirbúningur Lundaból

Í Garðabæ hefur börnum á leikskólaaldri fjölgað með stækkandi bæjarfélagi og stórum árgangi sem er að hefja leikskólagöngu sína í haust. Vegna þessarar fjölgunar leikskólabarna í bænum er stefnt að því að opna nýjan leikskóla í Garðabæ í haust. Nýi leikskólinn hefur fengið heitið Mánahvoll og verður staðsettur á Vífilsstöðum, við hliðina á leikskólanum Sunnuhvoli sem er þar fyrir. Leikskólabyggingin verður samsett úr einingahúsum sem flutt verða á staðinn.

Ungbarnaleikskóli fyrir 12-24 mánaða gömul börn

Mánahvoll verður 6 deilda ungbarnaleikskóli fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða. Kristín Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem leikskólastjóri Mánahvols en hún hefur undanfarin tvö ár starfað sem aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Ökrum í Garðabæ. Nú þegar er byrjað að auglýsa eftir leikskólakennurum við Mánahvol og áhugasamir geta enn sótt um þar sem frestur til að sækja um er til og með 11. júlí nk. Sjá starfsauglýsingu hér.
Leikskólinn Mánahvoll tekur til starfa í ágúst með einni deild til að byrja með og svo bætast við fleiri deildir um haustið. Fyrstu vikurnar hefst starfsemi skólans í húsnæði leikskólans Krakkakots á Álftanesi þar til búið verður að setja upp og útbúa hús Mánahvols á Vífilsstöðum. Gert er ráð fyrir að það verði í byrjun október sem starfsemin flyst yfir á Vífilsstaði.

Öll börn sem eru 12 mánaða í ágúst hafa fengið boð um leikskólapláss

Garðabær hefur lagt metnað í að bjóða börnum niður í 12 mánaða aldur kost á leikskóladvöl þegar skólaár hefst 1. september ár hvert. Nú þegar er búið að bjóða öllum börnum sem eru fædd í ágúst 2020 og eldri pláss í leikskólum í bænum. Fyrirhugað er að bjóða börnum fæddum frá september 2020 pláss á leikskólanum Mánahvoli með haustinu þegar skólinn verður tekinn til starfa.

Á næsta ári fjölgar leikskólum enn í bænum þegar nýr leikskóli rís í Urriðaholti. Byggingarframkvæmdir við þann leikskóla eru í undirbúningi en niðurstöður úr hönnunarsamkeppni um leikskólann lágu fyrir í byrjun júní og gert er ráð fyrir að skólinn verði tilbúinn á árinu 2022.