26. sep. 2019

Hjólað til framtíðar í Samgönguviku

Samgönguvika var haldin 16.-22. september sl. og tók Garðabær að sjálfsögðu þátt í henni líkt og fyrri ár. Fjölmargir áhugaverðir viðburðir voru í bænum þessa daga en það sem stóð hæst var hjólaráðstefnan Hjólum til framtíðar sem haldin var föstudaginn 20. september. 

  • Hjólaráðstefna 2019
    Hjólaráðstefna 2019

Samgönguvika var haldin 16.-22. september sl. og tók Garðabær að sjálfsögðu þátt í henni líkt og fyrri ár. Fjölmargir áhugaverðir viðburðir voru í bænum þessa daga en það sem stóð hæst var hjólaráðstefnan Hjólum til framtíðar sem haldin var föstudaginn 20. september. Yfir 70 manns mættu á ráðstefnuna sem nú var haldin í níunda sinn. Hjólafærni og Landsamtök hjólreiðamanna stóðu að ráðstefnunni en meginþemað í ár var Göngum ‘etta.

Áhugaverð erindi

Annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Jim Walker frá Walk21. Hann gekk um Ísland fyrir 35 árum og varð fyrir djúpum hughrifum og stofnaði í framhaldinu alþjóðlegu göngusamtökin Walk21. Samtökin leggja áherslu á gott flæði fyrir gangandi vegfarendur í borgum heimsins. Hans Voerknecht var hinn aðalfyrirlesarinn í ár. Hann hefur um árabil leitt þróun lausna fyrir hjólandi vegfarendur í Hollandi með ráðgjöf og stefnumótun undir hatti Hollenska hjólasendiráðsins. Auk þess er hann vel að sér í raunverulegum kostnaði samfélagsins á því sem í daglegu tali kallast „frí bílastæði“ og talar fyrir eflingu hjóla og almenningssamgangna og nauðsyn þess að draga úr dekri við einkabílinn. Fjölmörg innlend erindi voru einnig á dagskránni sem þóttu öll einkar áhugaverð. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnuna og Diddú söng fyrir ráðstefnugesti í lok dags ásamt Hjólabandinu.

Hjólaferð um Garðabæ

Kvöldið fyrir ráðstefnuna, 19. september buðu Hjólafærni og LHM uppá rólega hjólaferð frá Garðatorgi en hjólað var um Garðabæ og aðstæður skoðaðar fyrir hjólreiðar. Árni Davíðsson leiddi ferðina og endað var á veitingastað IKEA þar sem hópurinn fékk kvöldverð. Áhugasamt hjólreiðafólk tók þátt í ferðinni ásamt nokkrum bæjarfulltrúum og skemmtu allir sér vel þrátt fyrir rigningu og nokkur vindstig.

Miðvikudaginn 18. september var boðið upp á lýðheilsugöngu þar sem gengið var á Álftanesi frá Kasthúsatjörn meðfram sjónum og umhverfis Bessastaðatjörn. Sú ganga var í samvinnu við SÍBS, Vesen og vergang og Wapp leiðsöguappið.

Þá var bíllausi dagurinn haldinn sunnudaginn 22. september og vonandi tóku Garðbæingar þátt í honum. Markmið dagsins er að hvetja til notkunar á öðrum ferðamátum en einkabílnum og var frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu þann dag.

Hjólaráðstefna 2019

Hjólaráðstefna 2019Hjólaráðstefna 2019