31. ágú. 2021

Fjölbreytt menningardagskrá í nýjum dagskrárbæklingi

Íbúar Garðabæjar eiga von á sendingu með póstinum á morgun, 1. september en þá verður borinn í hús dagskrárbæklingur sem inniheldur yfirlit yfir alla viðburði og dagskrá sem í boði eru í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og í Tónlistarskóla Garðabæjar í haust.

  • Haustdagskrá 2021.
    Haustdagskrá 2021.

Íbúar Garðabæjar eiga von á sendingu með póstinum á morgun, 1. september en þá verður borinn í hús dagskrárbæklingur sem inniheldur yfirlit yfir alla viðburði og dagskrá sem í boði eru í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og í Tónlistarskóla Garðabæjar í haust.

Bæjarbúar geta þannig séð á einum stað hvað er framundan í menningarstofnunum bæjarins og er dagskráin fyrir haustið afar fjölbreytt.

Nýjungar og hefðbundnir viðburðir á dagskrá

Sunnudagsleiðsagnir á Hönnunarsafni Íslands í tengslum við yfirstandandi sýningu sem og fyrirlestrar í tengslum við útgáfu á bók um ævistarf Kristínar Þorkelsdóttur hönnuðar eru meðal hefðbundinna dagskrárliða á Hönnunarsafni Íslands.

Þá verður áfram hinn sívinsæli viðburður Sögur og söngur á dagskrá á Bókasafni Garðabæjar sem og leshringir, foreldraspjall og handavinnuklúbburinn Garðaprjón en handavinnukennari mun leiðbeina þátttakendum í haust.

Nýjungarnar eru að í hverjum mánuði verða í boði ókeypis hádegistónleikar með yfirskriftinni Tónlistarnæring sem og smiðjur sem styrktar eru af Barnamenningarsjóði og eru liður í verkefninu Við langeldinn / Við eldhúsborðið.

Bæklingurinn gefur til kynna að haustið lofar góðu þegar kemur að menningarlífi í Garðabæ. Bæklinginn má finna hér á rafrænu formi en einnig verður hann borinn í hús þann 1. september nk.