15. feb. 2023

Alþjóðlegt mót í bogfimi í Miðgarði

Í dag, 15. febrúar verður haldið alþjóðlegt mót í bogfimi fatlaðra uppi á 3. hæð óinnréttaða rýmisins í Miðgarði. 

Í dag, 15. febrúar verður haldið alþjóðlegt mót í bogfimi fatlaðra  uppi á 3. hæð óinnréttaða rýmisins í Miðgarði. Þar verður skotið á 50m færi. Þorsteinn Halldórsson bogfimimaður skorar á erlenda æfingafélaga sína, en Þorsteinn hefur haft æfingaaðstöðu þarna síðan Miðgarður opnaði. Keppnin verður frá kl. 16-18 og eru allir velkomnir að koma og fylgjast með keppninni og kynnast betur bogfimiíþróttinni.

Gestir Þorsteins á Íslandi eru fyrrum evrópumeistarinn og verðlaunahafi á heimsmeistaramótum í greininni, Marcel Pavlik og Keseniya Markitantova.

Þorsteinn og Marcel eru hinir mestu mátar og hafa æft stíft saman undanfarna daga í undirbúningi sínum fyrir Paralympics í París. Einnig hafa þeir mæst margoft á stórmótum í bogfimi um víða veröld. Báðir kepptu þeir t.d. á Paralympics í Ríó de Janeiro árið 2016 en það ár varð Þorsteinn fyrstur Íslendinga til þess að komast á Paralympics í bogfimi.

Keseniya Markitantova keppir nú fyrir Pólland en er upprunalega er frá Úkraínu. Hún er einnig þaulreynd bogfimikona og hafnaði m.a. 9. sæti á Paralympics í Ríó de Janeiro 2016.

Keppnin er liður í heimsókn Marcel og Keseniyu til Íslands en þau þrjú munu öll svo standa að annarri bogfimikynningu í húsakynnum ÍFR dagana 18. og 19. febrúar. Nánar upplýsingar um það hér.