19. apr. 2017

Samningur undirritaður um kaup á Vífilsstaðalandi

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra undirrituðu í dag, miðvikudaginn 19. apríl, samning um kaup Garðabæjar á landi Vífilsstaða. Undirritunin fór fram í golfskála GKG í Garðabæ.

  • Ritað undir samning um kaup Garðabæjar á Vífilsstaðalandi
    Ritað undir samning um kaup Garðabæjar á Vífilsstaðalandi. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Gunnar Einarsson bæjarstjóri

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra undirrituðu í dag, miðvikudaginn 19. apríl,  samning um kaup Garðabæjar á landi Vífilsstaða. Undirritunin fór fram í golfskála GKG í Garðabæ.

Í fréttatilkynningu sem var birt 6. apríl sl. var greint frá því að Garðabær og fjármála- og efnahagsráðuneytið, f.h. ríkissjóðs, hefðu náð samkomulagi um að Garðabær myndi kaupa jörðina Vífilsstaði. Um er að ræða alls 202,4 ha sem er svæðið í kringum Vífilsstaðaspítala, svæði austan Vífilsstaða (Skyggnir), núverandi golfvallarsvæði GKG, friðland í Vífilsstaðahrauni (Svínahrauni) og Rjúpnahæð á móts við Kjóavelli.

Kaupverðið nemur 558,6 mkr og byggir það á mati á grunnverði landsins sem aðilar stóðu sameiginlega að. Við undirritun kaupsamnings koma til greiðslu 99,3 mkr.  Eftirstöðvar koma til greiðslu í tengslum við uppbyggingu svæðisins eða eigi síðar en innan átta ára. Til viðbótar grunnverði á seljandi rétt á hlutdeild í ábata af sölu byggingarréttar á svæðinu.

Undanskildar eru allar húseignir ríkisins á Vífilsstöðum en gerðir verða lóðarsamningar um eignirnar.
Með kaupum á landinu tryggir Garðabær sér forræði yfir eignarhaldi landsins sem mun auðvelda bæjarfélaginu að vinna að gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið.

Í tillögu að nýju aðalskipulagi Garðabæjar er gert ráð fyrir að svæði Vetrarmýrar, Hnoðraholts og Vífilsstaða verði eitt skólasvæði með 1200-1500 íbúðum þar sem fléttast saman ólíkir hagsmunir með uppbyggingu íbúðarbyggðar, skóla- og íþróttasvæði og atvinnu- og þjónustusvæði. 

Garðabær fyrirhugar í framhaldi af undirritun samningsins að efna til samkeppni um rammaskipulag svæðisins.

Sjá líka frétt á vef Garðabæjar frá 6. apríl 2017.

Ljósmyndir með frétt: Garðapósturinn