7. sep. 2017

Íþróttastarf fyrir börn og unglinga – Erum við á réttri leið?

Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar heldur opinn fund þar sem fjallað verður um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 14. september kl. 17:00 – 18:30 í Golfskála GKG við Vífilsstaðaveg.

  • Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar hélt opinn fund í september 2017 þar sem fjallað var um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga.
    Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar hélt opinn fund í september 2017 þar sem fjallað var um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga.

Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar heldur opinn fund þar sem fjallað verður um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 14. september kl. 17:00 – 18:30 í Golfskála GKG við Vífilsstaðaveg.

Í Garðabæ hefur verið lögð mikil áhersla á íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga enda sýna rannsóknir að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi geti haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd ungra einstaklinga. Hefur það m.a. verið gert með því að skapa heilsueflandi umhverfi, sem býður upp á fjölþætt framboð og góða aðstöðu til íþrótta- og tómstundastarfs.  Einnig er boðið upp á hvatapeninga til að niðurgreiða æfingagjöld íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga í Garðabæ á aldrinum 5-18 ára. 
Á undanförnum árum hafa ýmsar breytingar átt sér stað í skipulagi á íþróttastarfi fyrir börn og unglinga, má þar m.a. nefna að æfingamagn í mörgum greinum hefur aukist, hópum er getuskipt fyrr og börn byrja fyrr að taka þátt í keppnishaldi.

Skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga

Á fundinum verður rætt um skipulag íþróttastarfs fyrir börn og unglinga og leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:
• Hvaða áhrif hefur skipulag æfinga á félagslega hegðun og líðan barnanna í daglegu lífi? 
• Hvaða kosti eða ókosti hefur getuskipting varðandi íþróttalega færni og sköpunarmátt barna?
• Er markmiðum starfsins innan íþróttafélaganna náð til skemmri og lengri tíma litið?

Fræðimenn frá HÍ og HR flytja 15 mín erindi og svara síðan fyrirspurnum. Umræður um málefnið verða í pallborði þar sem yfirþjálfarar frá íþróttafélögum í Garðabæ taka þátt ásamt frummælendum. Fundurinn er opinn öllum sem áhuga hafa á málefninu.

Dagskrá fundarins

• Kári Jónsson íþróttafulltrúi Garðabæjar - ,,Þátttaka Garðbæinga í skipulögðu íþróttastarfi og nýting hvatapeninga" 
• Sveinn Þorgeirsson íþróttafræðingur M.Sc. - ,,Er meira betra í þjálfun barna?" 
• Vanda Sigurgeirsdóttir, sérfræðingur í eineltismálum - ,,Hvernig líður þeim?" 
• Viðar Halldórsson félagsfræðingur - ,,Íþróttir barna og ungmenna: Uppeldisstarf eða afreksstarf?" 
• Pallborðsumræður
Umræðustjóri er Björg Fenger formaður íþrótta-, og tómstundaráðs Garðabæjar

Viðburður á fésbókarsíðu Garðabæjar

Allir velkomnir!